Færsluflokkur: Dægurmál

Á landleið enn og aftur

Það var síld í gær og fylltum við dallinn og gott betur en við settum tvö köst í Margrétina, það fyrra um 100 tonn og það seinna um 500 tonn. Þannig að þessi dagur rennir enn stoðum undir kenninguna um að það sé Begga gamla sem táldregur síldina með frygðarstunum sínum. Í fyrrakvöld lágum við bundnir við bryggju á Grundarfirði utan á Margrétinni og þar fyrir framan var Vilhelm Þorsteinsson að landa.Dagurinn gekk vel fyrir sig og er áhöfnin orðin sem smurð vél og hvert hjólið öðru liðugra. Marlboromaðurinn dregur nótina rétt eins og hann sé að afklæða kerlu sína og þar tekur Maggi Bjarka við á nótaleggjaranum og leggur hana rétt eins og um parket sé að ræða. Sæmi sér alfarið um hringabyssuna og er leit að liðugri manni en Sæma þegar kemur að nótadrætti. Þóhallur H. dregur blýið og er sem rafsoðinn á dekkið og Eiður W er á korkaleggjaranum og leikur þar við hvern sinn fingur þannig að áhöfnin er sem ein massíf heild þannig að okkur er ekkert ómögulegt. Sæmi mun bjóða uppá nætursaltaðan fisk í hádeginu á morgun sem er meira að segja okkar eigin framleiðsla en þegar kvölda tekur mun kappinn hafa hug á að velgja grillið og fíra undir blessaðri sauðkindinni. Heyrst hefur að ónefndur maður um borð lumi á rauðvínsbelju og bind menn vonir við að fá að lóga þeirri beljunni yfir kvöldmatnum annað kvöld.Meira síðar og góða helgi.Strákarnir á Birting.

Grundarfjörðurinn

Góða kvöldið gott fólk og takk fyrir síðast.

Við Fórum frá Hornafirði seinnipart sunnudags og var stefnan tekin norður fyrir landið. Það voru fréttir af síld í Jökulfjörðum en þegar svo gerbreyttist það og var  farið í Kiðeyjarsundið enn og aftur  og þangað komum við í morgun. Það var leiðinlega hvasst í dag en við tókum eitt kast um hádegið og skilaði það umþb 330 tonnum.

Eitthvað fengu menn lítið af síldinni í dag en það kemur dagur eftir þennan. Það spáir betur fyrir morgundaginn og binda menn vonir við að betur gangi þá.

Meira á morgun.

Strákarnir á Birting.

 


Loksins uppfærsla.......

Góðan daginn lansmenn nær og fjær, nú skal bloggað.

Netið hefur legið niðri um hríð vegna bilunar í kerfi símans og hefur þar af leiðandi ekki verið uppfært en betra er seint en aldrei sagði vélstjórinn þegar hann vaknaði á bekknum.

Við erum að landa á Hornafirði og hófst löndun kl 13:00 að staðartíma. Við lentum í löndunarbið á eftir Jónu Eðvalds en við vorum komnir í höfn á fimmtudagskvöld. Nobbararnir fóru heim en um borð eru 4 menn, Meistari Zoega, Vilmundur, Stebbi græni og starfsmaður í þjálfun en við vorum að fá nýjan vélstjóra sem heitir Kristinn en P. Ingjalds er farinn í stutt frí. Skipið er ekki alveg nýtt fyrir Kristni frekar en fleiri skip en hann vann hjá Héðni áður en er nýkominn frá því að bora hjá Jarðborunum. Kristni er minnisstætt þegar hann skipti um sírat sem sumir kalla sveifludempara í Beggu, sennilega er það fyrirbrigði sem annað kvenfólk myndi kalla rasskinn.

Við fréttum af miðunum og létu menn ekki vel af veðri en ekki fengust svör er spurt var um aflabrögð og túlki það hver fyrir sig. Það hefur líka sýnt sig í haust líkt og oft áður að þegar sá blái hefur verið fjarri miðunum virðist ekki fást síld, merkilegt nokk. Komnar eru upp kenningar um að malið í Beggu gömlu hafi góð og róandi áhrif á síldina og jafnvel að síldin laðist að unaðsstunum Beggu þegar hún líður um miðin.

Stefnan er að ná út á flóði kl 15:00 á morgun og liggur þá leið, sem og oftar á hin fengsælu mið.

Verið sæl og elskið friðinn.

MBK. Strákarnir á Birting.


Villta vestrið

Góðan daginn gott fólk.

Við erum mættir vestur aftur eftir að hafa rennt til Hornafjarðar með 750 tonn af eðalsíld.

Á Hornafirði fundu menn sér ýmsa hluti til dundurs en þeir Hjörvar, Óli Gunnar, Villi Harðar og Vilmundur héldu til rjúpna og uppskáru misgóðan afla. Óli Gunnar kom sá og sigraði með 8 stk, Hjörvar fylgdi honum fast á hæla með 5, þar næstur var Villi með 3 og Villi Harðar kom svo með eina rjúpu. Vilmundur sá tófu og tók á rás á eftir henni en vildi ekki betur en svo að hann féll í hlíðinni og rann niður lausagrjótið. Hlaut hann sár á vinstri rasskinn sem leit illa út, alla vega hættu Hjörvar og Óli Gunnar að biðja um að fá að líta á skurðinn eftir að hafa séð hann einu sinni. Einnig beið vopn Vilmundar tjóns en hún er rispuð og brotin. Vilhelm og Hjörvar héldu til rjúpna næsta dag einnig og skiluðu sér með sitt hvorar 2 rjúpurnar.

Á laugardagskvöldið var haldið á Hótel Vík þar sem menn vökvuðu sig lítið eitt fyrir svefninn. Sumir meira en aðrir en eins og segir í ljóðinu, og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó.

Nú erum við í leit á miðunum og vonum að við eigum framundan enn einn snilldardaginn undir stjórn hins nýbakaða nótaskipstjóra Hjörvars.

MBK. Strákarnir á Birting.


Sælir landsmenn nær og fjær.

Nú erum við á leiðinni á Hornafjörð enn eina ferðina og er áætlað að vera þar á laugardagsmorguninn. Við byrjuðum veiðar kl 10:00 í gærmorgun og fyrsta kast skilaði umþb 150 tonnum og einnig var nótin rifin. Þá reyndi á hvort menn væru til þess búnir að gera við nót ef þannig bæri undir og reyndist svo vera og menn saumuðu eins og enginn væri morgundagurinn og eftir skamman tíma vorum við kastklárir aftur. Kast nr.2 var tekið en ekki endilega til að fiska heldur að athuga hvort veiðarfærið væri ekki í lagi og reyndist svo vera. Kast nr.3 var tekið og þá ákveðið að klára dæmið enda fullvissir um að allt væri í toppmálum og skilaði kastið því sem við þurftum.

Það slæðist ýmislegt upp af hafsbotni og rignir yfir kallana í kassanum eins og td. skel, krossfisk, kuðungum, krabba, ígulkergjum og lengi mætti telja. Villi H. fékk 3 skötuseli í gær sem hann verkaði og pakkaði inn í frost og mátti sjá meistara takta við pökkunina enda á ferð hundvanur frystitogaranagli.

Villi í steininumÞetta grjót kom óboðið aftur í nótakassa við lítinn fögnuð en er nú farið til síns heima aftur.

Segjum þetta gott að sinni.

MBK. Strákarnir á Bláa bauknum.


Mættir aftur eftir viðgerð.

Sælt veri fólkið.

Nú erum við komnir aftur eftir að hafa brugðið okkur í kvínna á Akureyri í örstutta viðgerð. Það var vesen á stýrinu en það er úr sögunni, þeas vesenið.

Við tókum eitt kast sem við gáfum Margrétinni en það var meldað um 200 tonn. Það vantar einhverja slettu í Mögguna ennþá en Súlan mun sjá um að redda því þannig að við erum komnir í frí í dag. Nú erum við á rúntinum að skoða okkur um og virða fyrir okkur lóðningar, eyjar, sker, fuglalíf, seli og margt fleira.

Villi Harðar settist við tölvuna og lét hugann reika um hvernig skipið liti út fáeinum metrum lengra og á meðfylgjandi mynd á sjá árangurinn af vinnu Vilhelms við skjáinn.

Sá blái eftir lengingu Gaman væri að fá viðbrögð og frekari tillögur frá lesendum bloggsins.

Að þessu sögðu set ég inn nokkrar myndir af því sem við vorum að brasa í dag.

Kallar á dekki Verið að ræða málin.

Stutt upp í fjöruStutt uppí fjöru.

MaggiMaggi að þrífa dekkið.

IMG_0159[2]Faxi að brasa.

Með þessu kveðjum við í bili og vonumst eftir frekari tillögum við lengingu og breytingum þess bláa.

MBK. Strákarnir á Bláa bauknum.

 

 

 

 

 


Sælir landsmenn

Greina hefur mátt ákveðnar tafir á uppfærslum en verður nú breyting á.

Helst í fréttum er þetta.

Við tókum þrjú köst í okkur og fylltum og áttum afgang sem fór um borð í Margrétina. Næsta dag var hafist handa við að rusla upp afla fyrir þá margrétarmenn og skelltum við í þá einum 900 tonnum og Sighvatur Bjarna rétti þeim einnig hjálparhönd og setti í þá ein 300 tonn. Það er djöfullegt að eiga við síldveiðar á Margrétinni þar sem ekki er nót um borð. Þeir eru að bæta úr því og mun Súlan EA verða þeirra veiðarfæri.

En að okkur sjálfum aftur við erum staddir á Akureyri og komnir á þurrt og verið er að lagfæra stýrisbúnaðinn sem hefur átt betri daga. Enum manni varð það að orði að það væri skrýtið að stýrisvélin væri að svíkja okkur allt í einu núna. Hún væri nefnilega búin að virka svo vel að ekki hefði verið litið á hana í 21 ár. Álíka undarlegt og með eldspýtuna sem virkaði síðast.............

Jamm, sá blái er í kvínni en vonandi verðum við klárir eftir helgina.

MBK.Strákarnir á Bláa bauknum.


Rólegur dagur fyrir vestan......

Jamm það væru rólegheit um borð í gær en við vorum stoppaðir af og beðnir að bíða  með að fiska meira þangað til núna. Kl. 07:00 var svo Begga gamla sett í gang, (yrir þá sem þekkja ekki Beggu þá er það Bergen Diesel aðalvélin okkar) og uppúr því var rennt úr höfn. Ekki var sá blái á þeim buxunum að fara svona snemma og hélt hann sér sem fastast í bryggjuna með hringabyssunni. Hún er þó nokkuð bogin en brúkleg. Nú malar Begga eins og köttur og við erum í leit að blessuðu silfrinu.

Gærdagurinn var þó vel nýttur en td. var farið á skytterí á zodiacnum og komu til baka 3 menn, 2 teistur, 2 endur og 9 skarfar. Einnig var haldin björgunaræfingin,,,, meðvitundarlaus maður í asdikrými. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig æfingin fór fram og skal tekið fram að enginn maður slasaðist í þessu ferli og komum við sjúklingnum heilum og höldnum frá asdikrými og inni koju í sjúkraklefanum.

RænulausRænuleysIngi Steinn Freysteinsson

MaggiMaggi hafði allt á hreinu með hvernig skyldi bera hinn laskaða upp stigann.

Og upp stigann með kallinnAllir saman nú !

Engir menn létust eða slösuðust við töku þessara mynda.

 

Verið sæl að sinni, meira síðar.

Strákarnir á Birting.


Komnir á miðin aftur.

Já gott fólk það er ekki slegið við slöku hér um borð þrátt fyrir að hér sé sunnudagsmorgun. Það var verið að ræsa strákana rétt í þessu og stendur til að gera eitt og annað. Hjörvar er í fyrsta sinn með skipið einn en eins og sjá mátti er Ísak farinn í land og telur hann Hjörvar vera orðinn útskrifaðan. Ekki er annað að heyra á áhöfninni en að þeim lítist vel á og hafi tröllatrú á Hjörvari.  Það er svolítið nýtt fyrir Hjörvari  að þvælast heilu dagana um með veiðarfærið þurrt um borð en það venst vonandi fljótt. Um leið og áhöfnin þakkar Ísaki kærlega fyrir samveruna vottum við honum samúð okkar með síðasta leik hans manna þegar þeir létu í minni pokann fyrir Stoke.

Kokkurinn fékk óvænta aðstoð einn morguninn þegar ónafngreindur háseti tók að sér að setja í uppþvottavélina fyrir hann en efnið sem kappinn brúkaði var víst ekki alveg það rétta og á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig vélin leit út þegar hún var opnuð, næstu þrjú skiftin. Engu að síður þakkar kokkurinn aðstoðina og er hásetinn samviskusami nú mun vissari um virkni uppþvottavéla.

 

Froðudiskó

Segjum þetta gott að sinni, meira síðar.

Strákarnir á Birting.


Hornafjörður

Lögðumst að bryggju í nótt en ekki var byrjað á að landa fyrr en um hádegi vegna bilunar í vinnslunni. Það fóru kátir piltar heim í nótt til Neskaupsstaðar en Ísak er farinn í land og tekur Hjörvar nú við sem okkar aðal maður í brúnni. Líst mönnum vel á og er hugur áhafnar sá að kappanum komi til með að takast vel til. Það var hormónalykt á göngunum og sólskinsbros á þeim köppum sem fóru að skutla Ísaki heim en með í för eru þeir Hjörvar, Villi Harðar og Þórhallur.

Þennan túrinn var nýr maður sem er þó mörgum sjómanninum kunnur en það er Snorri Hall sem rak áður Egilsbúð og hefur hann mörgum manninum brynnt þar í gegnum tíðina.

Hér er ljómandi gott veður og eru menn upp um allan bæ að viðra sig í sólskini og logni. Farið var í Nettó og verslað gasgrill að flottustu gerð og verður það grimmt notað á næstu dögum. Verður vonandi haldin villibráðarveisla en nokkrir skotveiðimenn eru um borð og hugsa sér gott til glóðarinnar í löndunum.

Sæl að sinni og meira síðar.

MBK. Strákarnir á Bláa bauknum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Birtingur NK-119

Höfundur

Óskasynir Síldarvinnslunnar
Óskasynir Síldarvinnslunnar
Hér verða fréttir af áhöfninni á Birting NK 119

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSC00109
  • DSC00130
  • DSC00213
  • DSC00213
  • DSC00102

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband