Innsetning ljósmynda verður nú reynd.

Kokkurinn sáttur með kastiðHér er kastið að koma að síðunni og lofaði góðu.

 

 

 

Silfrið enn á sundi.Hér sést krauma í nótinni.

Dælan komin útíFínt kast.

Kallarnir í kassanum.Kallarnir í kassanum.


Góðan daginn landsmenn til sjávar og sveita.

Það hefur verið lítt um færslur hér undanfarið vegna þess að sá sem sér um það brúkaði til þess stímvaktirnar sínar en nú er hann kokkur. Jamm hann Sæmi er farinn í frí og er það Vilmundur sem malla ofan í úlfana í fjarveru Sæma.

Við komum inná Kiðeyjarsund í gærmorgun og var þá hafist handa. Fyrsta kastið var æfing en svo tókum við um 100 í því næsta. Í dælingunni rauk brytinn inn í eldhús og snaraði á borðið og menn skruppu inn í mat en að því loknu tókum við eitt kast til að fylla dallinn. Við fengum farþega en það er hér maður frá fiskistofu að kanna hvort ekki sé allt í lagi og að sjálfsögðu er það svo.

Annars er lítið að frétta af okkur annað en hið allra besta og munu myndir úr kastinu koma hér fljótlega.

MBK. Strákarnir á Bláa bauknum.


Gaman saman með fullan dallinn

Jamm nú er blái baukurinn fullur af síld og liggur leiðin á Hornafjörð. Það voru tekin 5 köst, þeas ef ekki eru talin með reiðisköstin og það dugaði okkur í dallinn. Talandi um köst, í einu kastinu í einhverjum tórunum þá rann nótin fyrir borðeins og lög gera ráð fyrir en sá var hængurinn á að geilavírinn varð eftir um borð og hafði gleymst að húkka honum í.                                                    Þá er talið að Vilmundur hafi slegið heimsmet í geðveikis kasti karla án atrennu með blótsyrðum og formælingum. Ekki náðist þessi atburður á filmu þannig að þessi stund verður goðsögnin ein áfram.

Annars er fínt að frétta af mannskapnum og er legið á meltunni eftir grautinn hjá Sæma.

Skorað hefur verið á þá sem eiga leið um síðuna að kvitta fyrir komunni.

Góðar stundir og elskið friðinn.

MBK. Strákarnir á Birting.


Allt fast í botni og drall á því

Jamm, við köstuðum á sundinu sem kennt er við breidd og brá mönnum heldur í brún þesar allt stóð fast í botni. En með einstakri lagni tókst jöxlunum í brúnni að húkka dræsunni af og var hún dregin nánast stráheil. Það er töluverð síld á svæðinu og eru menn blýsperrtir fyrir komandi degi.

Sem stendur er einn í fríi og er það Óli Gunnar 2. stýrimaður og ekki er kreppustíllinn eða vælið í þeim kappanum. Hann situr að sumbli í sólinni á Madeira og án efa meða sangría í ermalausum bol.   Heyrst hefur að hann hafi tekið með sér tvö stykki rolex þar sem Dabbi og Geir eru í einhverjum vanda með millifærslu aura.

Það eru fleiri sem eru í vanda í millifærslukreppunni og hefur Marlboromaðurinn Geir Zoega staðið í ströngu við að færa tengdamóður sinni í Tailandi fé en hún er að bæta við belju í sveitinni svo að hægt verði að gefa drengnum mjólk með kökunum þegar hann kemur í heimsókn.

Góðar stundir og hafið í huga að þetta eru bara peningar.

MBK. Strákarnir á Birting.                                 


Sjómannslíf sjómannslíf......

Já það gengur á ýmsu en ekki er ástæða til þunglyndis þrátt fyrir haugrifið veiðarfæri og fjármálakreppu. Við köstuðum á Grundarfirðinum á fínt lóð en ekki vildi betur til en að nótin liggur á gjörgæslu á Akranesi. Skítt með það en verra þykir að þegar nótinni var spólað í land féll stærðar haugur yfir dráttarblökkina og ofan á einn af mönnunum sem komu til að gera við hana og fór hann burt af bryggjunni í sjúkrabíl. Við fyrstu sýn virtist hann fótbrotinn jafnvel á báðum en það er birt án ábyrgðar og vonum við að það hafi farið eins vel og mögulegt var.

erum á leið inn á Grundafjörð að sækja aðra nót og svo skulu hendur standa framúr ermum, fyllum allar lestar af síld og förum til Hornafjarðar. Bara að það væri jafn einfalt að framkvæma það eins og að slá það inná lyklaborð.

Villi Harðar hefur í kreppunni séð að sér og á dögunum opnaði hann verslun um borð sem fékk nafnið Birtubúð. Þar selur hann ymsar gerðir af sælgæti og mun hann Villi sennilega koma betur út úr kreppunni en margur annar. Villi fjárfesti einnig í sparigrís á Hornafirði um daginn sem undir eins var skírður Kreppusvínið. Þar mun hann naga saman því sem í síðasta mánuði var litið á sem óþarfa rusl í vasa en verður sennilega það sem heldur Villa á floti þegar harðnar á dalnum.

Verið sæl að sinni og góðar stundir.

Piltarnir á Birting.


Next stop, Hornafjörður.

Sæll veri netheimurinn og takk fyrir síðast.

Þegar önnur nót var komin um borð lá leiðin til baka inn á Breiðasund en þar var ekki pöddu að sjá og var brugðið á það ráð að renna inn í Kiðeyjarsund og kanna málið, og viti menn þar var síld og hófust menn handa. Við tókum tvö köst og það fyrra skilaði um 400 tonnum en það seinna um 700 tonnum og dugaði það okkur og var restinni dælt um borð í Bjarna Ólafsson og fylltum við hann einnig. Það er værð yfir mannskapnum enda 30 tíma stím frá Breiðasundi til Hornafjarðar og nægur tími til svefns. Ígær var afmæli um borð og var það Maggi sem átti afmæli en ekki er vitað um staðfestan aldur kappans en heyrst hafa tölur á göngunum og eru þær frá 28 til 34 sem er ekki ósennilegt.

Nú erum við staddir rétt austan við Vestmannaeyjar og verðum í landi á Hornafirði umþb 06:00 í fyrramálið. Menn bíða spenntir enda margir hér um borð sem ekki hafa siglt inn ósinn áður.


Já það var drall á okkur.

En fall er fararheill og við látum þetta ekki á okkur fá. Við erum í þessum töluðu orðum að koma inn í Helguvík að sækja aðra nót og svo liggur leiðin beint upp í Breiðasund aftur. Er aflamelding skiljaramanns að aflinn sé 180 tonn og það af flottri síld. Það er grunnt í Breiðasundi og þarf að vanda vel til verka þegar þar er kastað, þá er gott að hafa tæplega sjötugan reynslubolta um borð sem kann tökin á þessu þeas hann Ísak.

MBK. Kapparnir á Birting NK 119.


mbl.is Á síld innan við Stykkishólm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótel Helguvík.

Kallarnir mættu blýsperrtir um borð í Birting á mánudaginn var og hófust handa við að græja sig í að moka upp silfri hafsins. Byrjuðum á að taka nót á Neskaupsstað og renndum með hana inn í Helguvík og skiftum henni út fyrir djúpnótina enda standa stórir hlutir til. Ekki gekk það áfallalust fyrir sig en tæpum 5 tímum síðar var verkfærið komið um borð og má til gamans geta að þetta er sama nót og gleypti í sig um 2000 tonn í Grundarfirði í fyrra. Nú í hádeginu munu jaxlarnir skreppa út og leita en það spáir þó enn brælu en við látum það ekki á okkur fá.

Töluverð breyting er á áhöfninni frá í sumar og er td. kominn nýr maður í brúna og er það fyrrum skipsstjóri á Barða NK  hann Hjörvar og honum til halds og trausts er Ísak sem á nokkur köstin að baki. Tailandsfarinn Geir Zoega er 1. stýrimaður og Óli Geir er 2. stýrimaður. Hásetarnir eru flestir af gamla Beiti NK og er þar miklir reynsluboltar á ferð. Myndir af áhafnarmeðlimum munu koma fljótlega.

MBK. Naglarnir á Birting NK.

 


Stopp í bili....................

og Birtingur á leið í slipp. Skipið liggur í landi á Neskaupsstað og verður slippur bráðlega. Við munum blogga þegar kemur að áframhaldi á veiðum og hér verða fréttir af okkur þegar þar að kemur.

 

Kv. Piltarnir á Birting. 


Sælt veri fólkið


Nú erum við að toga með Vilhelm Þorseins og þykir ekki slæmt. Allur afli hefur farið í Vilhelm og
þar frysta naglarnir eins og enginn sé morgundagurinn. Vilja þeir Villi kokkur og Gestur dekkhetja
koma sérstöku þökkum til þeirra sem eru á línubyssunni á Vilhelm en ber báðum dekkmönnum á Birting saman um það að þar séu þær færustu skyttur sem þeir hafa séð til. Mátti litlu muna í síðasta holi að Vilmundur færi óvígur í land þegar línan skall í lærið á honum rétt neðan við viðkvæman stað.

Menn beittu sig hörku og færðu líkamsræktarstöðina um borð, sem voru nú átök útaf fyrir sig og er
nú komin hreyfingaraðstaða í einn klefann. Nú hlaupa menn eins og greitt sé fyrir og brenna því sem kokkurinn býður uppá.

Heyrst hefur að för Geirs Zoega leggist misvel í menn og jafnvel megi greina öfund þar sem Geir mun leika lausum hala í Tailandi næsta mánuðinn. Þar mun hann kynna sér veiðarfæri og aðra hluti sem tengjast sjávarútvegi.

MBK. Strákarnir á Birting.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Birtingur NK-119

Höfundur

Óskasynir Síldarvinnslunnar
Óskasynir Síldarvinnslunnar
Hér verða fréttir af áhöfninni á Birting NK 119

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSC00109
  • DSC00130
  • DSC00213
  • DSC00213
  • DSC00102

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband